Ríkislögreglustjóri gekk of langt í bakgrunnsathugunum

12.03.2013
 
Perónuvernd hefur úrskurðað í kæru frá FVFÍ, FFÍ og FÍA vegna misbeitingar ríkislögreglustjóra á framkvæmd bakgrunnsathugana samkvæmt loftferðalögum.

 
Í kvörtun lögmanns FFÍ og FVFÍ segir að upplýsingaöflun ríkislögreglustjóra gangi freklega inn á þá persónuvernd sem einstaklingar njóta lögum samkvæmt og stjórnarskrárvarða vernd á friðhelgi einkalífs. Farið sé langt fram úr því sem lög nr. 60/1998 og reglugerð nr. 985/2011 heimila og ríkislögreglustjóri útvíkki upp á sitt einsdæmi þann ramma sem honum er veittur til upplýsingaöflunar.
 
Persónuvernd tekur undir kæru félagana og segir í dómsorði : "Við framkvæmd bakgrunnsathugunar á grundvelli laga nr. 60/1998 um loftferðir er ríkislögreglustjóra óheimil öflun upplýsinga um hvort einstaklingi, sem sætir athugun, hafi verið stefnt eða bíði málsmeðferðar í einkamáli; hvort viðkomandi sé á skrá Creditinfo Lánstrausts hf. yfir fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga; og um hjúskaparstöðu viðkomandi og maka eða sambýling."