NTF (Nordisk Transport Forbund) fréttir

05.01.2014
Fulltrúar FVFÍ sátu fund og ráðstefnu NTF í Helsingör Danmörku 7-8. Nóvember síðastliðin

Maríus Sigurjónsson og Gunnar Rúnar Jónsson sátu fund og ráðstefnu NTF í Helsingör Danmörku 7-8. Nóvember síðastliðinn fyrir hönd FVFÍ. Þar voru ásamt okkur aðilar frá hinum ýmsu stéttarfélögum á norðurlöndunum, einnig sátu aðilar frá FÍA (Félag íslenskra atvinnuflugmanna) og FFÍ (Flugfreyjufélag Íslands) þessa ráðstefnu.

Fyrri daginn var hefðbundinn fundur NTF og skýrslur frá þeim stéttarfélögum sem voru mætt.
Mikið mæðir á „Parat“ sem er stéttarfélag í Noregi sem meðal annars heldur utan um ground-staff í flugbransanum. Þar er dómsmál í gangi milli Ryanair og starfsmanns sem var sagt upp með ólögmætum hætti. Aðal slagmálin snúast um hvort reka ætti dómsmálið á Írlandi eða í Noregi þar sem að starfsmaðurinn var ráðinn. Neðra dómstig komst að því að reka eigi málið fyrir norsku dómstólum en Ryanair hefur áfrýjað því máli. Þetta er aðallega prófmál um hvort reka eigi svona mál í landinu sem Ryanair hefur base eða hvort eigi að miða við landið sem flugvélin er skráð í. Í þessu tilfelli þá er starfsmaðurinn ekki hluti af flight crew svo Ryanair er að teygja sig heldur langt.
Rætt var um rannsóknir á Flight Time Limitations fyrir flugáhafnir og umræður sköpuðust um þær. Samkvæmt rannskóknunum frá mismunandi aðilum þá eru núverandi flugtímamörk of löng og bæði flugmenn og freyjur hafa áhyggjur af öryggi vegna þessa.

Seinni daginn var ráðstefna sem kom inn á hvað Evrópusambandið er að gera til að sporna við Social dumping, eða félagslegum undirboðum.
Lággjaldaflugfélögin Norwegian og Ryanair voru fyrirferðarmest í umræðunni. Flest allir sem eru ráðnir hjá þeim eru verktakar. Þetta kemur í veg fyrir „óþarfa vesen“ með stéttarfélög, kjarasamninga, vinnuskilyrði oþh. sem flugfélagið gæti þurft að standa í. Á sama tíma og þessi flugfélög græða á tá og fingri þá skeyta þau lítið um sitt starfsfólk. Norwegian vill fá það í gegn að ráða flugfreyjur frá Asíu á mun lægri launum en t.d. þarf að borga norskum freyjum.

Evrópusambandið er að reyna að koma böndum á svona "creative" ráðningar, ekki síst til að koma böndum yfir skatttekjur sem stungið er undan með þessu. Það kemur sér að sjálfsögðu mjög illa fyrir starfsfólk að vera ráðið á svona kjörum; enginn stéttarfélagsvernd, enginn uppsagnarfrestur; engir veikindadagar; engar tryggingar osfrv. En gefur fyrirtækinu að sjálfögðu enn meiri hagnað með lægri rekstrarkostnaði.

Maríus Sigurjónsson, FVFÍ skýrði frá baráttu okkar við Fjármálaráðuneytið og hvernig það þurfti dómsúrskurð til að þeir myndu samþykkja samningsumboð FVFÍ fyrir flugvirkja starfandi hjá Flugmálastjórn (nú Samgöngustofa). Svo kom hann inn á umkvörtun FVFÍ til (aftur) Flugmálastjórnar vegna Air Atlanta og þeirri staðreynd að þeir brjóti gegn reglunni um að hafa fastráðna amk 50% af sínum flugvirkjum eins og kveðið er á um í EASA reglugerð. Flugmálastjórn fann ekkert að þessari tilhögun Air Atlanta en FVFÍ hefur ekki fengið að sjá á hverju þeir grundvalla þessa niðurstöðu og hefur kvartað til umboðsmanns alþingis og einnig sent kvörtun til EASA vegna þessa.

NTF eru samnorræn samtök ýmissa stéttarfélaga á norðurlöndunum sem vinna við flutningsgeirann, og er íslenska þýðingin Samnorræna Farmannasambandið. Sérdeild innan þessara samtaka er tengd fluggeiranum og þar eru meðal margra annara FÍA, FFÍ og FVFÍ aðilar. Þessi samtök berjast fyrir rétti launþega á ýmsum sviðum. Þessi samtök veita sínum aðildarfélögum góðan stuðning ekki síst þegar staðið er í kjarabaráttu og geta sett á aukin þrýsting með „mögulegum“ samúðaraðgerðum hvort heldur sem snýr að viðhaldi eða annari vinnu við flugvéla viðsnúning á útstöð. Stjórn FVFÍ hefur tekið þá afstöðu að rækta þetta samband við NTF og trúir því að það eigi eftir að borga sig til langframa að hafa þennan stuðning á „hinum endanum“.