Hversu mikilvæg eru réttindin þín?

20.03.2014
 
 
 Hversu mikilvæg eru réttindin þín ?
 
 
 
 
Flugvirkjar með vottunarréttindi (CRS) hafa vegna menntunar, reynslu og sérhæfingu þá skyldu að votta fyrir rétt framkvæmt viðhald og lofthæfi á íhlutum og kerfum flugvéla, að hluta eða í heild.
 
Hafa ber í huga að þegar flugvirki stimplar og gefur út sitt CRS þá er það yfirlýsing um fullt lofthæfi með lagalegt gildi gagnvart honum persónulega.  Dæmi eru um að kollegar okkar hafi þurft að sæta ábyrgð fyrir dómi og jafnvel gæsluvarðhaldi meðan rannsókn fer fram í tilfelli alvarlegri slysa.
 
Augljóslega hafa kerfisgallar og/eða mistök í viðhaldi flugvéla miklu alvarlegri afleiðingar en sambærileg atvik í svipuðum starfsgreinum.  Þess vegna er þjálfun flugvirkja frábrugðin öðrum iðngreinum að því leiti að eftir að hafa staðist öll EASA „module“ sem krafist er og töku sveinsprófs ásamt útgáfu Part 66 skírteinis hafa ekki áunnist nein réttindi til að ábyrgjast viðhald.  Það gerist ekki fyrr en eftir viðbótarþjálfun og starfsreynslu sérstaklega miðaða að þeirri flugvélatýpu eða íhlut sem votta á.  Auk þess bætist við Human Factors, EWIS, Fuel Tank Safety, osfrv...
 
Það er vegna alls þessa sem flestir þræðir liggja í gegnum CRS manninn og óhjákvæmilega er sá maður miðpunktur í þessu öryggisneti sem nauðsynlegt er að sé til staðar.  Það sem helst hefur vantað á, er að við sjálfir áttum okkur á hvað breytt regluverk þýðir fyrir okkur.  Við vitum að ábyrgðin hefur alltaf verið okkar, en það sem gerst hefur er að búið er að færa alla þessa þætti í lög, því EASA reglugerðirnar eru innleiddar sem lög í hverju aðildarlandi fyrir sig.
 
Sem dæmi eru öll íhlutaskipti jafngild gagnvart reglugerð, þau þurfa öll að vera vottuð, og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða t.d. flugleiðsögubúnað eða afþreyingarbúnað farþega.  Reyndar er afþreyingarbúnaður í flestum tilfellum hluti af neyðarbúnaði flugvélar og því sérstaklega viðkvæmt mál.
 
Að öllu framansögðu hlýtur það að vera niðurstaðan að flugvirkjar aðlagi sig breyttu umhverfi og fari að umgangast vottunarréttindi sín af þeirri virðingu sem þeim ber.  Það er liðin tíð að hægt sé að hugsa sem svo, að fyrirtækið (Part 145) beri ábyrgðina.  Það er rétt að fyrirtækið ber ábyrgð á að skapa öruggt umhverfi í kringum reksturinn, en þegar allt kemur til alls þá stöndum við einir með „stimpilinn“.
 
 
Til viðbótar er mikið af efni þessu tengdu inni á Reglugerðarhorninu á www.flug.is
 
 
Kveðja,
Stjórn FVFÍ