Umhugsunarverð umræða um gerviverktöku

12.02.2015
Athygli hefur vakið sú umræða er verið hefur í fréttum undanfarið um aðstæður og kjör flugfreyja hjá flugfélaginu Primera (Primera Air Nordic)
 
 

Í dag birtist mjög góð grein á vef ASÍ þar sem farið er yfir málsatvik og sett í samhengi við gildandi lög á Íslandi.
 
Þessi umræða er af hinu góða þar sem gerviverktaka hefur farið hratt vaxandi innan fluggeirans bæði hér heima og erlendis.  Gerviverktaka er stórt samfélagslegt vandamál sem leiðir til félagslegra undirboða og verri lífskjara starfsfólks.  Ekki bara þeirra sem eru settir í þessa aðstöðu, heldur hefur einnig óbein áhrif á alla aðra í atvinnugreininni.
 
Félagsmenn FVFÍ hafa ekki farið varhluta af þessum áhrifum og lögbrot sem þessi eru framin á íslenskum flugvirkjum í dag.  Stjórnvöldum hefur verið bent á vandann en enginn áhugi verið á að leggja stéttarfélögum neitt lið í því sambandi.  Einnig er farið á svig við gildandi tilmæli evrópsku flugmálastjórnarinnar í þessu sambandi en Samgöngustofa, sem ber að framfylgja þeim reglum við íslenska flugrekendur, hefur ekki heldur haft áhuga á að taka á þeim málum.
 
Vonandi hefur opin umræða um vandamálið einhver áhrif til batnaðar.
 
Hér er slóðin á greinina og hvetjum við alla til að lesa þessa fróðlegu samantekt.