Flugvirkjafélag Íslands er 70 ára í dag 21. janúar 2017

21.01.2017
   

Það er í sjálfu sér ekki langt síðan Ísland tók sín fyrstu skref inn í flugheiminn. Þann 3.september 1919 hóf sig á loft úr Vatnsmýrinni fyrsta flugvélin sem keypt var til Íslands af fyrsta flugfélagi á Íslandi, Flugfélagi Íslands. Það var Avro 504, tvívængja flugvél úr fyrri heimstyrjöldinni sem flugfélagið notaði í flugsýningar og útsýnisflug, með einn farþega. Eins og gefur að skilja náði sá rekstur ekki langt, en þetta var aðeins upphafið. Flug var hafið á Íslandi.

Árið 1928 fóru 3 menn fóru á vegum Flugfélags Íslands til að læra flugvirkjun í Þýskalandi og þá fóru hjólin að snúast.
Flugvirkjafélag Íslands var stofnað af 33 mönnum þann 21.janúar 1947 á hótel Winston á Reykjavíkurflugvelli.
Hótel Winston var hótel sem samanstóð af 3 braggasamstæðum við Nauthólsvík í Reykjavík og var reist af breska hernum árið 1942 til 44 í tengslum við Reykjavíkurflugvöll.

Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir: Jón N. Pálsson, formaður, Dagur Óskarsson, ritari og Sigurður Ingólfsson, gjaldkeri. Þrír varamenn voru einnig kosnir, þeir Ásgeir Magnússon varaformaður, Sigurður Ágústsson vararitari og Sigurður Erlendsson varagjaldkeri.

 
Fyrstu ár félagsins fóru í að móta réttindi íslenskra flugvirkja. Þar má nefna gerð fyrsta kjarasamingsins sem var samþykktur á félagsfundi 7.desember 1947. Mikil barátta hefur verið alla tíð í kjaramálum og verndun flugvirkjunar sem  iðngreinar enda tiltölulega fámenn iðngrein hér á landi og stendur sér á báti varðandi regluverk en faggreinin heyrir undir íslenskar iðnlöggjafar og evrópskar EASA reglugerðir.

Menntun íslenskra flugvirkja hófst með þessum þremur ofangreindu í þýskalandi og hafa íslendingar stundað flugvirkjanám í mörgum löndum síðan þá. Má þar nefna Ísland, Ameríku, Danmörk, Svíþjóð, Grikkland og Skotland. Í dag er algengt að læra flugvirkjun á Íslandi.

Margt er hægt að nefna úr sögu félagsins og má hér sjá nokkur atriði.
  • Merki félagsins var tillaga frá Gísla Sigurjónssyni sem var samþykkt 27. október 1950 en Halldór Sigurjónsson teiknaði merkið.
  • Á aðalfundi 4. febrúar 1951 var stjórninni veitt heimild til að verja 3.000,-kr. til kaupa á skrifborði sem síðan ætti að varðveitast á heimili einhvers félagsmanns, en í því ætti að geyma öll gögn félagsins“.
  • Trúnaðarmenn á vinnustöðum voru fyrst kosnir 11. febrúar 1952, en þeir voru Gunnar Valdimarsson hjá Flugfélagi Íslands og Hörður Eiríksson hjá Loftleiðum en Alfred Olsen tók við 21. Október sama ár.
Félagsmenn hafa með stuðning félagsins í gegnum tíðina verið virkir í ýmis konar félagsstarfi og má þar nefna útgáfu tímarits, kór FVFÍ, skeljakvöld, blúskvöld, skemmtikvöld, óvissuferðir og jólaböll. Einnig var FÍFUR (félag eiginkvenna/sambýliskvenna flugvirkja) stofnað 1982 og árið 1999 voru um 100 konur í félaginu.
Eldri flugvirkjar félagsins hittast reglulega og þá bæði í sal félagsins fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði og öðru hvoru í ferðum á vegum félagsins. Hér má sjá skemmtilega grein frá Stefáni Vilhelmssyni flugvirkja frá ferð eldri flugvirkja að Hnjóti í Örlygshöfn.
 
Í dag rekur félagið skrifstofu og félagssal í Borgartúni 22 Reykjavík, tvo sumarbústaði í Suðursveit í Austur Skaftafellssýslu, sumarbústaði á Flúðum og Húsafelli. Gaman er að geta og má jafnvel telja það sem 70 ára afmælisgjöf til félagsmanna að um næstu mánaðarmót verður félaginu afhent til eignar glæsilegt heilsárshús í hlíðum Hlíðarfjalls á Akureyri.
Fjöldi félagsmanna er um það bil 500.
 
Flugvirkjafélag Íslands óskar félagsmönnum innilega til hamingju með 70 ára afmælið og mun fljótlega tilkynna hvernig þessum viðburði verður fagnað.
 
 
 
Samantekt fyrir FVFÍ, 
Pétur K Pétursson
Reynir G Brynjarsson
Gunnar R Jónsson